Enski boltinn

Bilic: Oxford ekki eina ungstirnið sem mun skína hjá West Ham í vetur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bilic segir Oxford til.
Bilic segir Oxford til. vísir/getty
Eins og mikið hefur verið fjallað um síðustu daga sló hinn 16 ára gamli Reece Oxford í gegn í sínum fyrsta leik með West Ham gegn bikarmeisturum Arsenal í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.

Oxford er þó ekki eina ungstirnið sem á eftir að láta að sér kveða með West Ham í vetur að sögn Slavens Bilic, knattspyrnustjóra félagsins.

„Sextán ára krakkar í dag eru ekki eins og þeir voru þegar ég var ungur,“ sagði Bilic sem tók við West Ham af Sam Allardyce í sumar.

„Þeir eru kannski ekki klárari en áður en þeir eru pottþétt þroskaðri og betur í stakk búnir til að spila þessa stóru leiki.

Verðandi stjarna? Josh Cullen gæti slegið í gegn með West Ham í vetur.vísir/getty
„Við vorum ekki svona þroskaðir í gamla daga né jafn góðir og Oxford. En það eru fleiri ungir leikmenn sem bíða handan við hornið hjá okkur,“ sagði Króatinn og nefndi í því samhengi írska miðjumanninn Josh Cullen sem kom við sögu hjá West Ham í forkeppni Evrópudeildarinnar í sumar.

„Þessir tveir eru farnir að banka á dyrnar hjá aðalliðinu en það eru fleiri á leiðinni. Unglingastarfið hjá West Ham á mikið hrós skilið.“

West Ham tekur á móti Leicester City á laugardaginn í 2. umferð úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×