Enski boltinn

Soldado að ganga til liðs við Villareal

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Óhætt er að segja að Soldado hafi ekki tekist að slá í gegn á  White Hart Lane.
Óhætt er að segja að Soldado hafi ekki tekist að slá í gegn á White Hart Lane. Vísir/Getty
Roberto Soldado flaug í morgun til Spánar til þess að gangast undir læknisskoðun áður en gengið verður frá kaupum Villareal á spænska framherjanum. Snýr hann því aftur til Spánar með skottið milli lappana eftir tvö misheppnuð ár á Englandi.

Miklar væntingar voru gerðar til Soldado er hann gekk til liðs við Tottenham fyrir 26 milljónir punda, á þeim tíma metfé hjá félaginu.

Soldado skoraði af vítapunktinum sigurmark Tottenham í fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni en hann skoraði aðeins sex mörk á fyrsta tímabili sínu í ensku úrvalsdeildinni, þar af fjögur úr vítaspyrnum. Gekk honum heldur betur í Evrópudeildinni en hann lék alls sjö leiki það tímabilið og skoraði fimm mörk.

Þrátt fyrir slaka frammistöðu á fyrsta tímabili sínu í herbúðum Tottenham fékk hann annað tækifæri á síðasta tímabili en hann missti fljótlega sæti sitt í liðinu til Harry Kane. Lék hann alls 24 leiki í ensku úrvalsdeildinni, þar af aðeins sjö í byrjunarliði Tottenham og skoraði hann aðeins eitt mark.

Pochettino hefur staðfest að félagið hafi samþykkt tilboð Villareal og snýr hann því aftur til Spánar þar sem hann lék við góðan orðstír um árabil með Valencia og Getafe.

Talið er að Tottenham muni bæta við sig framherja áður en félagsskiptaglugginn lokar en félagið er einnig að reyna að losna við Emmanuel Adebayor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×