Enski boltinn

Er það hollustu-bónusinn sem heldur Balotelli hjá Liverpool?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli.
Mario Balotelli. Vísir/Getty
Mario Balotelli er ennþá leikmaður Liverpool þótt að það sé augljóst að ítalski framherjinn virðist eiga enga framtíð á Anfield.

Mario Balotelli skoraði aðeins eitt mark í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og frammistaða hans olli mjög miklum vonbrigðum. Hann er ekki beint leikmaður sem gefur mikið af sér inn á vellinum og er auk þess hálfgerður sérfræðingur í að koma sér í vandræði innan sem utan vallar.

Enska blaðið The Mirror hefur fundið mögulega skýringu á því af hverju Mario Balotelli sé svona rólegur yfir stöðu sinni hjá Liverpool.

Knattspyrnustjórinn Brendan Rodgers hefur gefið það út að Balotelli megi fara og Rodgers hefur gengið enn lenga með því að láta leikmanninn æfa með 21 árs liði félagsins.

The Mirror segir frá því í dag að Mario Balotelli sætti sig alveg að æfa með unglingaliðinu af því að hann eigi von á sérstökum hollustu-bónus verði hann ennþá leikmaður Liverpool þegar félagsskiptaglugginn lokar í september.

Samkvæmt frétt The Mirror fær Balotelli þá erum við að tala um sex tölu bónus sem er meira en tuttugu milljónir íslenskra króna.

Liverpool vill samt endilega losna við leikmanninn og hefur reynt að koma honum í lán hjá öðru félagi með því að bjóðast til að borga allt að sextíu prósent af launum hans.

Ítölsku félögin Lazio og Sampdoria hafa bæði sýnt honum áhuga en Mario Balotelli er víst ekki spenntur fyrir því að spila á Ítalíu þar sem hann hefur ítrekað orðið fyrir kynþáttafordómum.

Það gæti því farið svo að Mario Balotelli verði áfram í herbúðum Liverpool og fari kannski ekki fyrr en í janúarglugganum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×