Enski boltinn

Martinez hrósar Barkley og Lukaku

Anton Ingi Leifsson skrifar
Barkley og Lukaku fagna marki í gær.
Barkley og Lukaku fagna marki í gær. vísir/getty
Roberto Martinez, stjóri Everton, var virkilega ánægður með leik Everton gegn Southampton í gær, en Everton vann 3-0 sigur á Dýrlingunum. Romelu Lukaku gerði tvö mörk og Ross Barkley eitt.

„Barkley og Lukaku voru frábærir. Þegar þeir spila á sínum styrkleikum eru þeir mjög, mjög góðir leikmenn. Til þess að sjá allt það helsta frá einstaklingnum þarftu góða liðsframmistöðu svo það væri rangt að taka einhverja leikmenn út,” sagði Martinez í samtali við heimasíðu Everton.

Everton er með fjögur stig eftir leikina tvo, en undanfarin ár hefur Everton ekki gengið vel á St. Mary’s. Þeir bláklæddu gerðu jafntefli við Watford í fyrstu umferðinni.

„Þetta var ekki spurning um stigin, heldur spilamennskuna. Við áttum frábæra liðsframmistöðu. Í þau skipti sem við höfum komið hingað höfum við átt í vandræðum, en í dag gerðum við mjög vel.”

Lukaku skaut óvart boltanum í konu sem var í stúkunni fyrir leikinn og hljóp hann til hennar og gaf henni upphitunartreyju sína. Aðspurður út í málið svaraði Martinez: „Kannski þarf hann að skjóta boltanum í konu fyrir hvern leik,” grínaðist Martinez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×