Enski boltinn

Depay vill fá sjöuna hjá Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Memphis Depay.
Memphis Depay. Vísir/Getty
Memphis Depay er vonarstjarna Manchester United á komandi tímabili í ensku úrvalsdeildinni og þessi 21 árs gamli Hollendingur hræðist ekki pressuna sem fylgir því að spila á Old Trafford.

Daily Telegraph segir frá því að Memphis Depay hafi óskað eftir því við knattspyrnustjórann Louis van Gaal að fá að spila í treyju númer sjö á þessu tímabili.

Angel di Maria var síðasti maðurinn til að spila í sjöunni en hann entist bara í eitt tímabil hjá Manchester United og var seldur í vikunni til franska liðsins Paris Saint-Germain.

Margir af farsælustu leikmönnum í sögu Manchester United hafa spilað í sjöunni en það eru menn eins og George Best, Bryan Robson, Eric Cantona, David Beckham og Cristiano Ronaldo.

Það hefur ekki gengið eins vel hjá sjöum Manchester United liðsins undanfarin ár. Michael Owen var mikið meiddur, Antonio Valencia tók við af honum og leyfði Angel di Maria síðan að fá sjöuna síðasta haust.

Angel di Maria kom fyrir metupphæð frá Real Madrid en stóð ekki undir væntingum og er nú á förum.

Nían er líka laus hjá Manchester United en Memphis Depay var búinn að fá níuna og hefur spilað í henni á undirbúningstímabilinu.

Heimildir Daily Telegraph herma að Louis van Gaal hafi tekið vel í beiðni Memphis Depay enda að mati Van Gaal tákn um metnað og sjálfstraust hjá landa hans.

Memphis Depay hjálpaði PSV Eindhoven að vinna hollenska meistaratitilinn á síðustu leiktíð og er einn af allra efnilegustu knattspyrnumönnum Evrópu.

Það er margt sem bendir til þess að hann hafi nú augastað að fara svipaða leið og Cristiano Ronaldo gerði á sínum tíma en portúgalski knattspyrnusnillingurinn bætti sig mikið á árum sínum með Manchester United.

Takist Memphis Depay að bæta sig jafnmikið á næstu árum og Ronaldo gerði þá er von á góðu fyrir stuðningsmenn Manchester United.

Síðustu leikmenn til að spila í númer sjö hjá Manchester United:

Eric Cantona - (1993-1997)

David Beckham - (1997-2003)

Cristiano Ronaldo - (2003-2009)

Michael Owen - (2009-2012)

Antonio Valencia - (2012-13)

Angel di Maria - (2014-2015)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×