Enski boltinn

Roberto Martínez segir að John Terry hafi brotið reglur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry.
John Terry. Vísir/Getty
Roberto Martínez, knattspyrnustjóri Everton, ætlar ekki að gefa neitt eftir í baráttu sinni fyrir að halda hinum efnilega varnarmanni John Stones hjá félaginu.

Chelsea hefur boðið bæði 20 og 26 milljónir punda í John Stones en Everton hefur hafnað báðum tilboðum. Martínez segist ekki ætla að selja þennan 21 árs gamla miðvörð.

Martínez er mjög ósáttur með herferð Chelsea-manna en þeir José Mourinho, Gary Cahill og John Terry hafa allir rætt opinberlega áhuga Chelsea á þessum framtíðarmiðverði enska landsliðsins.

Nýasta útspil Martínez er að halda því fram að John Terry hafi brotið reglur í ummælum sínum um John Stones. Terry sagði: „Einn daginn verð ég ekki lengur í liðinu en Chelsea horfir til leikmanna eins og John Stones fyrir framtíðina. Félagið mun því halda áfram að vaxa og dafna," sagði John Terry á miðvikudaginn.

„Þetta er rangt og þetta er ólöglegt. Reglurnar leyfa mönnum ekki að tjá sig um svona um leikmenn sem eru samningsbundnir öðrum félögum. Þessi orð hans eru því mikil vonbrigði," sagði Roberto Martínez við The Gurardian.

Everton virðist þó frekar ætla að fara þá leið að kvarta við Chelsea frekar en að fara með málið lengra.

„Það er frábært samband á milli félaganna. Okkar mesta fjárfesting var þegar við fengum Romelu Lukaku frá Chelsea. Það vita allir að það eru reglur í gildi og við viljum ekki sjá önnur félög ræða við okkar leikmenn. Það er rangt og á ekki að gerast," sagði Roberto Martínez.

„Þetta John Stones mál er komið í fjölmiðla af því að Chelsea bauð í leikmanninn og gerði þau tilboð opinber. Við höfum aldrei rætt þetta. Við eigum mjög efnilegan leikmann sem á möguleika á því að verða besti miðvörður Englendinga frá upphafi. Félög munu því sýna honum áhuga og það er bara eðlilegt. Það eru hinsvegar engar viðræður í gangi og það er ekkert í spilunum um að hann fari eitthvert annað," sagði Martínez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×