Enski boltinn

Leicester kaupir Huth af Stoke

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Enska úrvalsdeildarliðið Leicester City er búið að kaupa þýska miðvörðinn Robert Huth af Stoke og gera við hann þriggja ára samning.

Frá þessu greinir heimasíða Leicester, en Huth spilaði vel með nýliðunum á síðustu leiktíð þegar hann var þar á láni frá Stoke.

Huth spilaði stóra rullu í því að halda Leicester í úrvalsdeildinni, en liðið fór á mikinn skrið seinni hluta tímabils og hélt sæti sínu.

Robert Huth hóf ferilinn á Englandi með Chelsea árið 2002 en var síðar á mála hjá Middlesbrough frá 2006-2009 áður en Stoke fékk hann í sínar raðir. Hann á að baki 19 leiki fyrir þýska landsliðið.

Huth er annar leikmaðurinn sem Leicester fær til sín í sumar, en fyrr í þessum mánuði samdi enska félagið við austuríska varnarmanninn Crhstian Füchs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×