Fótbolti

Wambach sleppur með áminningu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wambach er komin með eitt mark á HM.
Wambach er komin með eitt mark á HM. vísir/getty
FIFA, alþjóðaknattspyrnusambandið, hefur áminnt Abby Wambach, framherja bandaríska landsliðsins, fyrir ummæli hennar eftir leik Bandaríkjanna og Kólumbíu í 16-liða úrslitum á HM í Kanada á mánudaginn.

Tveir miðjumenn bandaríska liðsins, þær Megan Rapinoe og Lauren Holiday, fengu að líta gult spjald í leiknum sem útilokar þær frá þátttöku í leiknum gegn Kína í 8-liða úrslitunum í kvöld.

Eftir leikinn ýjaði Wambach að því að dómarinn, hin franska Stephaine Frappart, hefði ætlað sér að spjalda Rapione og Holiday, sem fengu báðar að líta gult spjald í riðlakeppninni, til að koma þeim í leikbann.

Wambach baðst afsökunar á ummælum sínum daginn eftir sem bjargaði henni líklega frá harðari refsingu.

Wambach, sem er markahæsti leikmaður í sögu bandaríska landsliðsins, klúðraði vítaspyrnu í leiknum gegn Kólumbíu. Það kom þó ekki að sök því Bandaríkin unnu 2-0 með mörkum frá Alex Morgan og Carli Lloyd.

Leikur Bandaríkjanna og Kína í 8-liða úrslitunum hefst klukkan 23:30 í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×