Enski boltinn

Fyrsti sigur Sunderland undir stjórn Advocaat | Sjáðu draumamark Defoe

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Glæsimark Jermain Defoe réði úrslitum þegar Sunderland og Newcastle mættust í seinni leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Lokatölur 1-0, Sunderland í vil, en liðið vann báða leikina gegn erkifjendum sínum í vetur.

Mark Defoe kom á lokamínútu fyrri hálfleiks og var af dýrari gerðinni. Boltinn barst til framherjans við vítateigsbogann og hann tók boltann á lofti og þrumaði honum með vinstri fæti í bláhornið.

Þetta frábæra mark tryggði Sunderland fyrsta sigurinn undir stjórn Hollendingsins Dick Advocaat sem tók við af Gus Poyet í síðasta mánuði.

Sunderland er nú komið upp í 15. sætið með 29 stig, þremur stigum frá fallsæti. Newcastle er í því 13. en liðið hefur tapað fjórum leikjum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×