Fótbolti

Vill að bandamenn Úkraínu sniðgangi HM í Rússlandi 2018

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/EPA
Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, biðlaði til bandamanna þjóðar sinna að ræða það að sniðganga heimsmeistaramótið í fótbolta sem fer fram í Rússlandi eftir þrjú ár verði Rússar ekki búnir að fara burtu frá Úkraínu með hermenn sína.

Poroshenko sagði þetta í viðtali við þýska blaðið Bild sem birtist í morgun.

Poroshenko sagðist hafa alltaf viljað halda fótboltanum og pólítikinni aðskildum en það var ekki mögulegt eftir að Shakhtar Donetsk var látið spila heimaleik sinn í 1200 kílómetra fjarlægð frá heimavelli sínum.

UEFA þurfti að færa leikinn í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar frá Donetsk vegna átakanna í austurhluta Úkraínu.

"Ég tel að það verði að fara í gang umræða um að sniðganga þessa heimsmeistarakeppni. Það er ómögulegt að halda HM í Rússlandi á meðan það eru rússneskir hermenn í Úkraínu," sagði Petro Poroshenko.

Poroshenko mun biðja Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, um fara fyrir hertari aðgerðum gegn Rússum þar sem hann segir að Aðskilnaðarsinnar í austurhluta Úkraínu hafi hvað eftir annað virt vopnahléið að vettugi.

Heimsmeistarakeppnin á að fara fram í Rússlandi milli 14. júní og 15. júlí 2018. Keppnin mun fara fram í ellefu borgum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×