Íslenski boltinn

Sjáðu frá­bærar af­greiðslur Sigurðar Bjarts, vítavörslur Árna og endur­komu KR-inga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn KR fagna sigurmarki Eiðs Gauta Sæbjörnssonar gegn Aftureldingu.
Leikmenn KR fagna sigurmarki Eiðs Gauta Sæbjörnssonar gegn Aftureldingu. vísir/anton

FH og KR komu til baka og unnu mikilvæga sigra á ÍA og Aftureldingu í Bestu deild karla í gær.

Skagamenn byrjuðu mun betur gegn FH-ingum í Kaplakrika og eftir rúmar tuttugu mínútur voru þeir komnir 0-2 yfir. Haukur Andri Haraldsson skoraði fyrra mark gestanna frá Akranesi og Jón Gísli Eyland Gíslason það seinna.

Skömmu fyrir hálfleik voru Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, og Dean Martin, aðstoðarþjálfari ÍA, reknir af velli og í kjölfarið minnkaði Ísak Óli Ólafsson muninn fyrir heimamenn.

Í seinni hálfleik skoraði Sigurður Bjartur Hallsson svo tvö mörk sem skiluðu FH sigri. Liðið er ósigrað á heimavelli í sumar og er komið upp í 7. sæti deildarinnar. ÍA er aftur á móti á botninum, fjórum stigum frá öruggu sæti. Þrátt fyrir tapið í gær átti Árni Marinó Einarsson skínandi góðan leik í marki ÍA og varði tvær vítaspyrnur, frá Kjartani Kára Halldórssyni og Birni Daníel Sverrissyni.

KR lyfti sér upp úr fallsæti með sigri á Aftureldingu á Meistaravöllum, 2-1. Nýliðarnir eru aftur á móti komnir niður í fallsæti eftir að hafa aðeins fengið þrjú stig í síðustu sex leikjum.

Mosfellingar náðu forystunni með marki Hrannars Snæs Magnússonar á 11. mínútu. KR-ingar sóttu stíft eftir þetta og uppskáru loks á 54. mínútu þegar Aron Sigurðarson skoraði úr vítaspyrnu. Eiður Gauti Sæbjörnsson tryggði KR svo sigurinn með skallamarki á 65. mínútu. Hann hefur skorað tíu mörk í sumar og er næstmarkahæstur í deildinni.

Mörkin úr leikjunum tveimur í Bestu deild karla má sjá hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Uppgjörið: FH - ÍA 3-2 | Ótrú­leg endur­koma heima­manna í Kapla­krika

Það var hreint stórkostlegur fótboltaleikur sem gömlu stórveldin ÍA og FH buðu upp á á Kaplakrikavelli í kvöld. Heimamenn höfðu á endanum 3-2 sigur í ótrúlegum leik þar sem áhorfendur fengu heldur betur eitthvað fyrir peninginn. Fimm mörk, tvær vítaspyrnur, tvö rauð spjöld og hellingur af dramatík í alvöru fallbaráttuslag þessara sigursælu liða.

„Óreyndir dómarar sem falla í þessa gryfju“

„Þegar þessi skrípaleikur fer af stað hérna á fertugustu mínútu hefðum við átt að vera búnir að klára leikinn“ sagði Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari ÍA, eftir 3-2 tap gegn FH. Skagamenn byrjuðu leikinn mun betur og komust tveimur mörkum yfir, en svo hófst það sem Lárus kallar „skrípaleik.“

„Var farinn að krampa upp í öllum vöðvum líkamans“

Sigurður Bjartur Hallsson framherji FH var maður leiksins á Kaplakrikavelli, skoraði tvö mörk og tryggði sínum mönnum stigin þrjú gegn ÍA í Bestu deild karla. Hann var glaður en þreyttur eftir átökin í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×