Fótbolti

Ísland í efsta styrkleikaflokki í fyrsta sinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Stefán
Ísland verður í efsta styrkleikaflokki í fyrsta sinn frá upphafi þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni EM 2017 sem hefst um miðjan september. Drátturinn fer fram 20. apríl.

Miðað er við árangur í síðustu þremur undankeppnum stórmóta sem og í úrslitakeppni HM 2011 og EM 2013. Ísland hefur aldrei komist í úrslitakeppni HM en komst í 8-liða úrslit á EM 2013 í Svíþjóð.

Átta stigahæstu liðin, samkvæmt stigagjöf UEFA, eru í efsta styrkleikaflokki. Ísland er í níunda sæti stigalista UEFA, einu sæti á eftir Hollandi sem er gestgjafi á EM 2017 og tekur því ekki þátt í undankeppninni.

Mörg sterk lið eru í öðrum styrkleikaflokki sem geta lent í sama riðli og Ísland. Meðal þeirra má nefna Rússland, Danmörku, Finnland og Sviss.

Þess má geta að Sviss var í sama riðli og Ísland í undankeppni HM 2015 og vann yfirburðasigur í riðlinum. Liðið fékk 28 stig af 30 mögulegum en Ísland varð í öðru sæti með nítján stig. Danmörk kom svo með átján.

1. styrkleikaflokkur: Þýskaland, Frakkland, Svíþjóð, Noregur, England, Ítalía, Spánn, Ísland.

2. styrkleikaflokkur: Rússland, Danmörk, Finnland, Sviss, Skotland, Austurríki, Úkraína og Belgía.

3. styrkleikaflokkur: Pólland, Tékkland, Wales, Írland, Rúmenía, Ungverjaland, Serbía og Hvíta-Rússland.

4. styrkleikaflokkur: Portúgal, Norður-Írland, Slóvakía, Bosnía, Tyrkland, Ísrael, Slóvenía og Grikkland.

5. styrkleikaflokkur: Eistland, Króatía, Kasakstan, Albanía, Makedónía, Svartfjallaland og tvö bestu liðin úr forkeppninni.

Lið í forkeppni: Færeyjar, Malta, Georgía, Litháen, Lettland, Lúxemborg, Andorra og Moldóva.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×