Fótbolti

Félag Sölva og Viðars keypti brasilískan landsliðsmann

Jadson fagnar marki með Corinthians.
Jadson fagnar marki með Corinthians. vísir/getty
Kínverska Íslendingaliðið Jiangsu Sainty virðist hreinlega vaða í peningum.

Félagið er nú búið að kaupa brasilíska framherjann Jadson frá brasilíska stórliðinu Corinthians.

Sainty greiddi Corinthians 750 milljónir króna fyrir leikmanninn sem verður með litlar 80 milljónir króna í mánaðarlaun næstu þrjú árin. Það gera litlar 960 milljónir króna á ári.

Til samanburðar má nefna að samkvæmt heimildum Vísis er Viðar Örn með rúmlega 100 milljónir króna í árslaun hjá félaginu.

Jadson er alvöru leikmaður og á að baki átta landsleiki með Brasilíu. Hann skoraði eitt mark í þessum landsleikjum en Jadson er sókndjarfur miðjumaður.

Hann spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2011. Hann var í brasilíska hópnum á Copa America árið 2011 og einnig í Álfukeppninni árið 2013.

Jadson spilaði með Shaktar Donetsk frá 2005 til 2011 en fór þá til Sao Paulo þar sem hann spilaði í tvö ár. Hann fór svo til Corinthians á síðasta ári.

Það er klárt að þessi leikmaður mun styrkja lið Sölva Geirs Ottesen og Viðars Arnar Kjartanssonar mikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×