Innlent

„Við þurfum að prenta það inn í börnin okkar að bera virðingu fyrir þeim sem eldri eru“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
"Í dag virðist hins vegar ekkert hægt að gera ef að börnin eru með húfu og vettlinga inn í tíma, fætur uppi á borðum og í símanum,“ segir Sölvi Breiðfjörð.
"Í dag virðist hins vegar ekkert hægt að gera ef að börnin eru með húfu og vettlinga inn í tíma, fætur uppi á borðum og í símanum,“ segir Sölvi Breiðfjörð. Vísir
Pistill sem Sölvi Breiðfjörð, sjómaður og tveggja barna faðir, skrifaði á vefinn eyjar.net í gær hefur vakið mikla athygli. Þar fjallar hann um mikilvægi þess að foreldrar ræði við börn sín um að það eigi að bera virðingu fyrir öllum og sýna almenna kurteisi.

Sölvi setur hlutina í samhengi við grein sem birtist á vef umboðsmanns barna þar sem fjallað var um snjallsímanotkun barna í skólum og þá staðreynd að kennurum og starfsfólki sé óheimilt að taka símana af börnunum.

Í samtali við Vísi segir Sölvi að sér finnist agaleysi barna vera viðvarandi vandamál í dag.

„Það er bara okkur foreldrunum sjálfum að kenna, fyrir það fyrsta. Við erum farin að pakka þessum börnum eiginlega inn í bómull og við leyfum þeim að gera miklu meira en foreldrar okkur leyfðu okkur að gera.“

„Ég kæri þig!“

Sölvi segist gera sér grein fyrir því að það séu breyttir tímar og að það sé gott mál að börn séu meðvitaðri um réttindi sín en áður fyrr. Það megi hins vegar ekki leiða til þess að þau beri minni virðingu fyrir til dæmis kennurum sínum og starfsfólki grunnskóla. Hann tekur dæmi um framkomu krakka við gangaverði í skólum:

„Eins og þegar ég var í skóla, þá bar maður virðingu fyrir öllum í skólanum, líka gangaverðinum. Í dag er þetta öðruvísi. Tengdamóðir mín starfaði sem gangavörður og það var meðal annars sparkað í hana. Svo ætlaði hún einhvern tímann að siða einhvern nemanda til, svona góðlátlega bara, og þá var það fyrsta sem kom upp úr barninu: „Ég kæri þig!“ Þetta er bara svona viðvarandi í skólum í dag.“

Hvað varðar snjallsímana og að taka þá með sér í skólann segir Sölvi:

„Það er kannski í lagi að börnin komi með símana í skólann af því þau þurfa að vera í sambandi við foreldra sína eftir skóla og annað slíkt en þau eiga ekki að vera í símanum í skólanum. Það mætti því alveg vera með hólf í kennslustofunni þar sem krakkar setja símana sína þegar þau koma í stofuna. Þannig trufla símarnir ekki kennslustundina.“

Virðingin þarf að vera á báða bóga

Grunnskóli er allt annað en framhaldsskóli eða háskóli, segir Sölvi. Það þurfi einfaldlega meiri aga og reglur inni í grunnskólunum.

„Virðingin þarf auðvitað að vera á báða bóga og ég er að sjálfsögðu ekki að tala um að kennarar beiti börn ofbeldi eins og tíðkaðist stundum hér áður fyrr. Í dag virðist hins vegar ekkert hægt að gera ef að börnin eru með húfu og vettlinga inn í tíma, fætur uppi á borðum og í símanum.“

Sölvi segir að umræðan um þetta verði að byrja heima:

„Við foreldrar þurfum að prenta það inn í börnin okkar að bera virðingu fyrir þeim sem eldri eru. Við þurfum að setjast niður með börnunum okkar og tala við þau um þetta, ekki bara setja lykil um hálsinn og senda þau af stað.“

Pistil Sölva á eyjar.net má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Snjallsímaofbeldi?

Varaformaður Félags grunnskólakennara, Guðbjörg Ragnarsdóttir, lýsti í Fréttablaðinu yfir áhyggjum af auknu ofbeldi nemenda í garð kennara. Ekki hvarflar það að mér að gera lítið úr ofbeldi, en ég hnaut um það í máli Guðbjargar að hún skilgreinir símanotkun nemenda sem eitt form ofbeldis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×