Skoðun

Snjallsímaofbeldi?

Heimir Eyvindarson skrifar
Varaformaður Félags grunnskólakennara, Guðbjörg Ragnarsdóttir, lýsti í Fréttablaðinu yfir áhyggjum af auknu ofbeldi nemenda í garð kennara.

Ekki hvarflar það að mér að gera lítið úr ofbeldi, en ég hnaut um það í máli Guðbjargar að hún skilgreinir símanotkun nemenda sem eitt form ofbeldis. Varaformaðurinn segir það algengt að nemendur taki upp myndskeið, eða hljóðbrot, af því þegar kennarar brýni raustina í kennslustundum og hóti síðan að gera það aðgengilegt öllum sem vilja heyra og sjá á internetinu. Að þessu sögðu segist hún ekki skilja þörfina á því að nemendur séu með síma í skólastofunni, sem búi yfir öðrum eiginleikum en hægt sé að hringja í þá og úr þeim.

Dálítið hugsi

Ég er satt að segja dálítið hugsi yfir þessu. Í fyrsta lagi finnst mér það dapurlegt viðhorf að snjallsímar og skóli fari ekki saman. Snjallsímar eru öflug tæki sem kennarar ættu að nýta sér í kennslunni. Það er illt til þess að vita að fólk í forystusveit grunnskólakennara skuli sjá óvin í nýrri tækni.

Í öðru lagi get ég ekki séð að það þurfi að ríkja mikil leynd yfir því sem fram fer í skólastofunni. Ég vona að þar gerist ekki margt sem ekki þolir dagsins ljós.

Vissulega get ég tekið undir það, að með tilkomu snjallsímanna eru kennarar berskjaldaðri en áður. Ég er sjálfur dauðfeginn að ekki séu til mörg myndbrot af mér í skólastofunni. Bæði er ég aðeins of feitur fyrir sjónvarp og auk þess hef ég lent í því að segja og gera hluti sem ég iðrast innilega. En ég held að það sé með þetta eins og flesta aðra hluti, að boð og bönn séu ekki endilega besta leiðin. Farsælla sé að kenna nemendum að nota tækin á skynsamlegan hátt og ekki síður að reyna að koma þannig samskiptum á í skólastofunni að ekki sé sérstök þörf fyrir hótanir eða annað ofbeldi. Það tekst auðvitað ekki alltaf, en vonandi er það að minnsta kosti stefnan.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×