Innlent

Með mýs í vinnu: Söfnuðu átta þúsund fræjum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Skúli smellti mynd af fræjunum sem sjá má á þessari mynd. Músin tengist fréttinni ekki.
Skúli smellti mynd af fræjunum sem sjá má á þessari mynd. Músin tengist fréttinni ekki. mynd/skúli/getty
„Það er mjög stór kostur að hafa þær hér því þær hirða eingöngu heil fræ en það er það sem við höfum aldrei getað og aldrei fundið út úr því hvernig á að gera,“ segir Skúli Björnsson, framkvæmdastjóri Gróðrarstöðvarinnar Barra ehf, í samtali við Vísi, en nokkrar mýs hafa gert sig heimakærar í vinnusal Barra og týnt þar lindifuruköngla af miklum móð. Austurfrétt greindi frá málinu í dag.

Skúli heldur að mýsnar séu þrjár en alls söfnuðu þær átta þúsund fræjum, eða tveimur og hálfu kílói og komu þeim fyrir í framlengingu á lyftaragöfflum sem staðsettir eru í vinnusalnum.

„Við sáum það að það var búið að taka heilmikið af fræjum og við vorum heillengi að leita. Við vissum raunar að það væru mýs en vissum ekki hvar þær væru. Verkefnastjórinn, Erla Vilhjálmsdóttir, tók sér hveiti til að sjá hvert þær væru að fara. Við fundum fræin svo í göfflunum og tóku þau, en mýsnar létu það lítið á sig fá og fundu sér annan stað,“ segir hann.

Starfsfólk Barra týnir árlega lindifuruköngla á Hallormsstað. Það síðan tekur lindifurufræið úr könglunum. „Það er mikil vinna fyrir okkur mannfólkið en lítið mál fyrir mýsnar,“ segir Skúli að lokum og bætir við að hann sé afar sáttur með þetta nýja vinnuafl. Mýsnar þrjár virðist þó vera komnar í frí, þar sem þær hafi ekki sést í nokkrar vikur.

Skúli náði þessu myndskeiði af músunum: 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×