Innlent

Lögregla hafði í nógu að snúast

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Í nótt festist bíll upp í Heiðmörk. Með ökumanni voru börn og hundar í bílnum, samkvæmt lögreglu. Mjög slæm færð var á staðnum og annar ökumaður sem kom til hjálpar þess fasta, festi sig einnig. Kalla þurfti út björgunarsveit til aðstoðar vegna færðarinnar og var fólkinu og dýrunum komið í hús.

Bílanna verður vitjað seinna.

Lögreglan stöðvaði aðila sem var mældur á of miklum hraða í íbúðahverfi. Í ljós kom að sá hafði þegar verið sviptur ökuréttindum og var þetta ekki í fyrsta sinn sem afskipti voru höfð af honum við akstur án réttinda. Þar að auki reyndist hann undir áhrifum áfengis.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu má sá eiga von á vænni sekt.

Brotist var inn í verslun á höfuðborgarsvæðinu í nótt og var sjóðsvél stolið. Samkvæmt lögreglunni var vélin þó tóm. Þá voru tveir aðilar grunaðir um að stela ilmvatni fyrir tugi þúsunda úr verslun. Lögregla afgreiddi málin á vettvangi.

Umferðaróhapp varð í Ártúnsbrekku í gærkvöldi og voru þrír fluttir með sjúkrabíl og þrír bílar fluttir með dráttabíl. Veginum var lokað um tíma og greiðlega gekk að opna fyrir umferð aftur. Ekki er talið um að alvarleg meiðsl hafi verið að ræða.

Tilkynnt var um tvö óhöpp í umferðinni í gærkvöldi en í báðum tilvikum skemmdust bifreiðar út frá hlutum í umhverfinu, í öðru var um holu í götunni að ræða en hinu var bifreið föst á klakahrygg og líklega skemmd eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×