Innlent

Göngumaður í sjálfheldu í Esjunni

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Vísir/Anton
Um hundrað björgunarsveitarmenn taka nú þátt í aðgerðum í Esjunni þar sem göngumaður er í sjálfheldu. Erfiðlega hefur gengið að staðsetja manninn en símasamband við hann hefur verið stopult, samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörgu. Maðurinn er orðinn kaldur enda leiðindaveður á staðnum, kalt og gengur á með éljum og skafrenningi.

Fyrir skömmu tókst að senda svokölluð RescueMe smáskilaboð í farsíma mannsins en sé þeim svarað fæst nokkuð nákvæm staðsetning viðkomandi. Samkvæmt gögnum úr þeirri sendingu er maðurinn staddur innst í Blikdal. Sótt er að staðnum úr fjórum áttum; upp Blikdal, frá Eilífsdal, Þverfelsshorni og Skálafelli á snjóbílum, snjósleðum, fjórhjólum og með gönguhópum, að því er segir í tilkynningunni.

Í samtali við Vísi klukkan 20.40 segir Ólöf Snæhólm, upplýsingafulltrú Landsbjargar, að enn sé ekki búið að finna nákvæma staðsetningu mannsins en að talið sé vitað um það bil hvar hann sé. Tekist hefur að ná símasambandi við manninn en samband við hann hefur verið stopult. Samkvæmt Ólöfu taka nú 110 björgunarsveitarmenn þátt í leitinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×