Innlent

Leitarmenn fengu á sig snjóflóð

Gissur Sigurðsson skrifar
vísir/haraldur ási
Fyrstu leitarhópar Landsbjargar, sem voru að leita að erlendum ferðamanni í sjálfheldu í Esjuhlíðum í gærkvöldi, fengu á sig snjóflóð í Blikadal, en allir sluppu ómeiddir. Björgunarmenn voru meðvitaðir um snjóflóðahættu á svæðinu og hóf enginn leit nema búinn snjóflóðaýlu, skóflu og stöng auk þess sem myndaður var sérstakur hópur til snjóflóðabjörgunar, ef á þyrfti að halda.

Erfiðlega gekk að staðsetja manninn í fyrstu, enda leitarskilyrði afleit í hvassviðri, myrkri og éljagangi, en með sérstakri tækni tókst það og fannst maðurinn efst í Blikadal. Hann var þá orðinn nokkuð kaldur en var ómeiddur. Björgunarmenn fylgdu honum gangandi niður að snjóbíl sem flutti hann niður á veg, þar sem bíll hans var, og hélt hann heim á hótel til að ná smá blundi áður en hann þurfti að vakna í flug af landi brott. Yfir hundrað björgunarmenn tóku þátt í aðgerðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×