Innlent

Stjórn styrktarfélags fundar eftir að tugir mótmæltu uppsögn forstöðukonu Reykjadals

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Úr sumarbúðunum.
Úr sumarbúðunum. Vísir/Valli
Tugir hafa skrifað undir mótmæli við uppsögn forstöðukonu í Reykjadal, þar sem styrktarfélag lamaðra- og fatlaðra heldur úti vetrar- og sumarbúðum fyrir fötluð börn. Framkvæmdastjóri styrktarfélagsins segir að verið sé að gera breytingar á starfinu og formaður stjórnar félagsins segir stjórnina ætla að koma saman í dag til að funda um málið. Hvorugur þeirra vill gefa upp ástæður uppsagnarinnar.

Sagt upp eftir fæðingarorlof

Forstöðukonunni, Sólveigu Hlín Sigurðardóttur, var sagt upp fljótlega eftir að viðkomandi kom úr fæðingarorlofi og segja þeir sem mótmæla uppsögninni að hún sé ómakleg. Einn þeirra sem gerir málið að umtalsefni er Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. „Virðingin sem hún hefur áunnið sér meðal starfsmanna í Reykjadal er slík, að uppsögn hennar kom sem reiðarslag inn í hópinn,“ segir hann.

Össur bætir við að tugir hafi mótmælt uppsögninni og segist skrifa um málið með leyfi Sólveigar. „Á rétt liðlega sólarhring skrifuðu ríflega sjötíu manns úr kjarnanum sem starfar við Reykjadal undir skjal þar sem uppsögninni er harðlega mótmælt,“ segir hann.

Ákvörðun stjórnarinnar

Vilmundur Gíslason, framkvæmdastjóri styrktarfélagsins, staðfestir að uppsögninni hafi verið mótmælt. Hann tjáir sig ekki um ástæður uppsagnarinnar að öðru leiti en að breytingar standi fyrir dyrum. Þá segir hann ákvörðunina hafa verið tekin af stjórn styrktarfélagsins. 

„Þetta var stjórnarákvörðun og það er komið bréf til stjórnarinnar,“ segir aðspurður um mótmæli við uppsögninni. Vilmundur vill ekki tjá sig um ástæður uppsagnarinnar þar sem það sé persónulegt mál. „Við erum að breyta til þarna en ég vil ekki tjá mig um þetta núna, enda er þetta persónulegt mál. Auðvitað er alltaf hundleiðinlegt þegar þarf að gera svona.“

Vilmundur Gíslason, framkvæmdastjóri styrktarfélagsins.Vísir/Anton
Ráðning til eins árs í senn

Tímasetning uppsagnarinnar er meðal þess sem vakið hefur athygli en Sólveigu var sagt upp að nýloknu fæðingarorlofi. „Þetta hefur alltaf verið tímabundið starf frá ári til árs, skipað ungu fólki, og það var akkúrat komið að endurnýjun,“ segir hann aðspurður um tímasetninguna. „Svo er bara ekki hægt, ef að á að breyta til, þá töldu menn ekki stætt að gera það í orlofinu sjálfu.“

Vilmundur segir að þrátt fyrir breytingar eigi hann ekki von á öðru en að öflugt starf verði í Reykjadal.

Funda um málið

Baldvin Bjarnason, formaður stjórnar styrktarfélagsins, vill ekki gefa uppi ástæður uppsagnarinnar án þess að hafa farið yfir málið með Sólveigu. Hann segir að stjórnin ætli að koma saman til fundar um málið í dag og að hann ætli að tala við forstöðukonuna. „Ég ætla að reyna að hitta stjórnina á eftir og fara yfir þessi mál,“ segir hann. Í kjölfarið segist hann ætla að reyna að ræða við hana.

Að neðan má sjá umfjöllun um sumarbúðirnar í Reykjadal.

Reykjadalur from Bjarney Ludviksdottir on Vimeo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×