Innlent

„Kýrnar hafa ekki verið spurðar hvort þær vilji liggja á básum“

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Daníel Magnússon er verulega ósáttur með nýju reglugerðina.
Daníel Magnússon er verulega ósáttur með nýju reglugerðina. Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson
Samkvæmt nýrri reglugerð um velferð nautgripa verður kúabændum bannað að hafa kýr sínar á básum því öll ný fjós eiga að vera lausagöngufjós með sérstökum burðarstíum. Kúabóndi á Suðurlandi gefur lítið fyrir reglugerðina og segist vilja hafa sínar kýr áfram á básum.

Fyrir helgi greindi Matvælastofnun frá því að út færi komin út reglugerð um velferð nautgripa byggð á nýjum lögum um velferð dýra, auk laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Fjölmörg nýmæli eru í reglugerðinni, þar á meðal að leggja skuli af básahald nautgripa innan tuttugu ára og að öll ný fjós skuli vera lausagöngufjós. Þá er bændum er gert að koma upp sérstökum burðarstíum innan tíu ára. Daníel Magnússon, bóndi í Akbraut í Holtum í Rangárþingi ytra, er með nýtt fjós. Hann er verulega ósáttur við nýju reglugerðina.

„Kýrnar hafa ekki verið spurðar að því hvort að þær vilji liggja á þessum eða þessum nýtískubásum. Mitt fjós er nýtt en það er með val, hvort þær vilja vera á legubásum eða gömlu hefðbundnu básunum. Þær vilja vera á hefðbundnu básunum gömlu vegna þess að þar eru þær í friði og geta étið sinn mat en á hinum básunum eru þær alltaf flöktandi og hafa aldrei sinn bás og þetta öryggi, sem þær finna í hinum básunum,“ segir Daníel.

Daníel gagnrýnir Matvælastofnun fyrir nýju reglugerðina.

„Nei, ég er ekki sáttur við Matvælastofnun.  Mér finnst hún vera farin að stefna í það að láta okkur bændur stunda hálfgert dýraníð með þessari reglugerð um aðbúnað á þessum básum. Kýr sem eru komnar nálægt burði, þær vilja ekki liggja á þessum nýtísku básum“, bætir Daníel við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×