Enski boltinn

Demichelis áfram hjá Englandsmeisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Demichelis hefur bæði orðið meistari í Þýskalandi og á Englandi.
Demichelis hefur bæði orðið meistari í Þýskalandi og á Englandi. vísir/getty
Martin Demichelis hefur framlengt samning sinn við Manchester City um eitt ár.

Demichelis, sem er 34 ára, kom til City frá Atlético Madrid haustið 2013 og varð Englandsmeistari með liðinu á sínu fyrsta tímabili.

„Ég er mjög stoltur og ánægður að hafa framlengt samninginn um eitt ár,“ sagði Argentínumaðurinn í samtali við heimasíðu Manchester City.

„Manchester City er félag með mikinn metnað. Við viljum bæta okkur á hverju ári,“ sagði Demichelis ennfremur.

Hann hóf ferilinn með River Plate í heimalandinu en gekk til liðs við Bayern München árið 2003 og lék með þýska stórliðinu í sjö ár.

Þaðan fór Demichelis til Málaga á Spáni og lék þar um tveggja ára skeið. Hann samdi við Atlético Madrid sumarið 2013 en lék aldrei með liðinu.

Englandsmeistarar Manchester City sækja Burnley heim í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×