Enski boltinn

Kompany: Þurfum að sýna úr hverju við erum gerðir

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Fyrirliði Manchester City, Vincent Kompany, segir að það sé mikil pressa á leikmönnum liðsins að gera betur en á síðasta tímabili en hann segir að það geti enginn vanmetið liðið.

Manchester City sem reyndi að verja enska meistaratitilinn á síðasta tímabili endaði átta stigum á eftir Chelsea en lærisveinar Manuel Pellegrini litu vel út í fyrsta leik liðsins á tímabilinu í gær í 3-0 sigri á West Bromwich Albion.

Kompany sem komst á blað með þriðja marki Manchester City í leiknum sagði að gagnrýnin myndi drífa áfram leikmenn Manchester City. Þrátt fyrir að vera með afar sterkt lið virðast fáir spá þeim bláklæddu titlinum í vor en félagið hefur tvisvar orðið enskur meistari á síðustu fjórum árum.

„Við þurfum að sýna úr hverju við erum gerðir í ár. Síðasta ár var undir væntingum liðsins og það mátti sjá á fyrsta leiknum. Leikmennirnir eru hungraðir, við vissum að við þyrftum að gefa út yfirlýsingu með spilamennskunni að við ætlum að berjast um titilinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×