Enski boltinn

Rondon genginn til liðs við WBA | Dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Rondon var á skotskónum á Copa America í sumar.
Rondon var á skotskónum á Copa America í sumar. Vísir/getty
Venesúelski framherjinn Salomon Rondon, gekk í dag til liðs við West Bromwich Albion frá Zenit St. Petersburg en WBA greiðir 12 milljónir punda fyrir þjónustu hans.

Er hann dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins, tveimur milljónum dýrari en Brown Ideye sem gekk til liðs við WBA á síðasta ári.

Rondon hefur undanfarin þrjú ár leikið í Rússlandi, tvö ár með Rubin Kazan og síðasta árið með Zenit st Petersburg. Lék hann áður fyrr með Malaga á Spáni en hann á 39 leiki að baki fyrir landslið Venesúela og hefur skorað í þeim 13 mörk.

Ýtir þetta undir sögusagnir að Saido Berahino sé á förum frá félaginu en hann hefur verið orðaður við Tottenham og Liverpool í sumar eftir að hafa skorað 20 mörk í 45 leikjum á síðasta tímabili.

Rondon verður ekki með liðsfélögum sínum í kvöld þegar West Bromwich Albion tekur á móti Manchester City á heimavelli en hann gæti leikið fyrsta leik sinn fyrir félagið á laugardaginn þegar WBA mætir nýliðunum í Norwich.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×