Bandaríski gamanleikarinn Tracy Morgan er allur að braggast eftir að hafa legið þungt haldinn á spítala í kjölfar sex bíla áreksturs í New Jersey í júní.
Einn samferðamanna Morgan, James McNair, lést í árekstrinum en þrír slösuðust alvarlega, þar á meðal Morgan.
Leikarinn sást yfirgefa heimili sitt í Cresskill, New Jersey í gær og sagði við blaðaljósmyndara á svæðinu að hann væri allur að koma til og að hann þakkaði allan þann stuðning sem honum hefði verið veittur á meðan hann dvaldi á spítalanum.
Lögfræðingar og fjölskylda leikarans lögsóttu Walmart í síðustu viku en bílstjóri á þeirra vegum olli slysinu. Bílstjórinn, Kevin Roper, hafði verið vakandi í meira en 24 klukkustundir þegar slysið varð.

