Erlent

Lendingarfarið Philae finnur flókin efnasambönd á 67P

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Fagnað Vísindamenn ESA fögnuðu ákaft þegar Philae lenti á halastjörnunni.
Fagnað Vísindamenn ESA fögnuðu ákaft þegar Philae lenti á halastjörnunni.
Lendingarfarið Philae, sem lenti á halastjörnunni 67P fyrir tæpum þremur vikum eftir 10 ára ferðalag um sólkerfið, sefur nú værum blundi enda sólarrafhlöður þess því miður í skugga halastjörnunnar.

Engu að síður liggur fyrir að Philae tókst á lokametrunum að senda gríðarlegt magn upplýsinga um yfirborð halastjörnunnar. Vísindamenn ESA vinna nú úr þessum gögnum sem eru þau fyrstu sinnar tegundar.

Stjórnandi verkefnisins, prófessor Ian Wright, sagði í samtali við BBC að traustar vísbendingar væru um að flókin, lífræn efnasambönd væri að finna á halastjörnunni. Þetta sætir miklum tíðindum enda hafa vísindamenn hingað til talið að aðeins einfaldari kolefnissameindir væru til staðar á halastjörnum eins og 67P. Philae hefur einnig staðfest að yfirborð 67P er úr ís og þakið þunnu ryklagi.

Uppgötvunin er mikilvæg viðbót í vopnabúr þeirra sem telja að halastjörnur séu eins konar sendiþjónusta fyrir líf og að halastjörnur hafi þeytt lífsnauðsynlegum efnum um jörðina þegar þær skullu á plánetunni fyrir milljörðum ára.

Erfitt er að áætla um hvað tekur við hjá Philae. Farið húkkar nú far með 67P sem æðir í átt að sólinni á 70 þúsund kílómetra hraða á klukkustund. Vísindamenn ESA eru sannfærðir um að Philae vakni til lífsins þegar halastjarnan nálgast sólina.


Tengdar fréttir

Reyna að lenda á halastjörnunni

Evrópska geimvísindastofnunin mun í dag gera tilraun til að koma könnunarfarinu Philae á yfirborð halastjörnu sem þýtur í gegnum geiminn á ofsahraða. Gervitunglið Rósetta hefur síðustu vikur fylgt halastjörnunni eftir og í dag á að reyna að lenda litlu könnunarfari úr tuttugu kílómetra hæð á yfirborðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×