Innlent

Sjúkraliðar hrekjast úr starfi vegna slæmra vinnuskilyrða

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Að sögn formanns Sjúkraliðafélagsins er sjúkraliðum oft gert að sinna störfum sem séu ekki í þeirra verksviði.
Að sögn formanns Sjúkraliðafélagsins er sjúkraliðum oft gert að sinna störfum sem séu ekki í þeirra verksviði.
Undanfarin ár hefur það færst í aukana að sjúkraliðar séu látnir sinna störfum sem eru ekki innan þeirra verksviðs. Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segir félagsmenn ósátta og það sé verið að hrekja þá frá störfum.

„Það er búið að vera í gangi í mjög langan tíma að störf ófaglærðra hafa verið að færast á hendur sjúkraliða. Við höfum mótmælt þessu og líka því að í einhverjum tilvikum er verið að ráða hjúkrunarnema í störf sjúkraliða. Sjúkraliðar eru lögvarin heilbrigðisstétt sem er menntuð til þess að sinna hjúkrun en ekki til þess að vera í ræstingu eða býtibúrsstörfum,“ segir Kristín. Hún segir dæmi um þetta bæði á spítölum og hjúkrunarheimilum.

„Við höfum alveg verið sammála þeirri stefnu að afsjúkrahúsavæða hjúkrunarheimilin en engu að síður hefur það orðið til þess að þar er verið að setja sjúkraliða í störf sem ófaglærðir höfðu gegnt fram að þessu. Þetta hefur tilheyrt meira inni á hjúkrunarheimilunum og þá í takt við þessa Eden-stefnu þar sem allir eiga að starfa jafnt. Við höfum þá sagt, af hverju á það þá ekki við alla menntaða heilbrigðisstarfsmenn, lækna og hjúkrunarfræðinga líka, ekki bara sjúkraliðana,“ segir Kristín.

kRISÍN á. gUÐMUNDSDÓTTIR
Hún segir oft lítinn greinarmun gerðan á menntun sjúkraliða og ófaglærðs starfsfólks. „Þessu höfum við mótmælt við landlæknisembættið og stofnanirnar sjálfar en lítið orðið ágengt í því.“

Kristín segir marga sjúkraliða vera afar ósátta við það hvernig komið sé fram við þá. Sums staðar hafi verið farin sú leið að skerða starfshlutfall þeirra til að ná fram sparnaði og sé þá unnið á styttri vöktum sem komi sér illa fyrir starfsfólkið. Vegna lélegra vinnuskilyrða séu því margir sjúkraliðar fluttir úr landi eða hafi snúið sér að öðrum störfum.

„Það er búið að vera að hrekja þá í burtu. Við höfum rætt það í kjaraviðræðum að það verði að byrja á því að koma almennilega fram við sjúkraliða til þess að þeir haldist í þessum störfum.“

Hún segir félagsmönnum hafa fækkað í undanfarin ár. „Það er mjög undarleg þróun að vera með fólk, sem er búið að mennta sig í 6-7 annir og sumir lengur, í að sinna svo þessum störfum. Það er ekki þjóðfélagslegur hagnaður af þessu, það er alveg ljóst,“ segir hún og kallar eftir úrbótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×