Erlent

Hægt að vinna bug á ebólafaraldrinum

Bjarki Ármannsson skrifar
Keiji Fukuda ræðir við Margaret Chan, framkvæmdastjóra WHO, á blaðamannafundi í Sviss.
Keiji Fukuda ræðir við Margaret Chan, framkvæmdastjóra WHO, á blaðamannafundi í Sviss. Nordicphotos/AFP
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur lýst því yfir að alþjóðlegt neyðarástand ríki nú vegna ebólufaraldursins í Vestur-Afríku. Fulltrúar stofnunarinnar segja brýna þörf á samstilltu, alþjóðlegu átaki til að stöðva útbreiðslu veirunnar.

Yfirlýsing WHO kom í kjölfar neyðarfundar sérfræðinga í Sviss sem stóð yfir í tvo daga. Faraldurinn sem kom upp í Gíneu síðastliðinn febrúar er sá mannskæðasti í sögunni og hefur nú grandað rúmlega 930 manns.

Í yfirlýsingu stofnunarinnar segir að í ljósi takmarkaðrar heilbrigðisþjónustu og þéttrar byggðar í þeim löndum sem veiran gæti næst borist til, séu mögulegar afleiðingar frekari útbreiðslu grafalvarlegar.

Keiji Fukuda, yfirmaður heilbrigðisöryggis hjá WHO, segir að séu réttu skrefin tekin sé hægt að vinna bug á faraldrinum.

„Þetta er ekki dularfullur sjúkdómur,“ segir Fukuda. „Þetta er smitsjúkdómur sem hægt er að hafa hemil á. Þetta er ekki veira sem smitast í lofti milli fólks.“

Samkvæmt BBC hafa yfirlýsingar WHO um neyðarástand táknrænt gildi en þær hafa engar takmarkanir á flugferðum fólks eða alþjóðlegum viðskiptum í för með sér.

Jeremy Farrar, forstjóri Wellcome-safnaðarins, segir að það sé enn mjög ólíklegt að ebólufaraldurinn muni verða að heimsfaraldri þótt íbúum Vestur-Afríku standi enn gríðarleg hætta af veirunni.


Tengdar fréttir

Hætta ferðamanna á smiti hverfandi

Ekkert lát er á sýkingahrinunni af völdum ebólaveiru sem hófst í Gíneu í byrjun febrúar á þessu ári, að því er fram kemur á vef Landlæknisembættisins.

Tveir Bandaríkjamenn greinast með Ebóla

Fjölmargir læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn sem vinna að meðhöndlun ebólufaraldursins í Vestur-Afríku hafa greinst með veiruna.

Skorað á WHO að útvega Afríku ebólalyf

Sérfræðingar segja að til séu nokkur mismunandi lyf og bóluefni sem hægt væri að nota til þess að berjast gegn þessum illskeytta sjúkdómi.

Ebólasmitaður maður til Bandaríkjanna

Sjúkrahús í Atlanta í Bandaríkjunum býr sig nú undir að taka á móti bandarískum hjálparstarfsmanni sem smitaðist af hinnum banvæna ebóla-vírusi í Vestur-Afríku.

Ebóla breiðist hratt út með jarðarförum

Gunnhildur Árnadóttir, starfsmaður Lækna án landamæra, starfaði á vettvangi ebóluveiru í Gíneu. Ástandið á svæðinu er afar slæmt og erfitt að ná tökum á því. Siðir við útfarir eru taldir mesti útbreiðsluvaldur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×