Lífið

Sneri upp á handlegg pólitíkusa

Geirix hefur náð mörgum skemmtilegum myndum gegnum árin sem ekki hafa passað í fréttir.
Geirix hefur náð mörgum skemmtilegum myndum gegnum árin sem ekki hafa passað í fréttir. Mynd/Geirix
„Ég er svo viðkvæm sál, ég er farinn að svitna,“ segir Ásgeir Ásgeirsson, betur þekktur sem fréttaljósmyndarinn Geirix hjá PressPhotos, en hann opnar sína fyrstu einkasýningu, Á nærfötunum: Hin hliðin á íslenskum stjórnmálum, í Tjarnarbíói klukkan sex í dag.

„Maður er búinn að sanka að sér myndum í gegnum tíðina sem passar ekki að hafa í fréttum, svona húmorsatvik sem gerast bak við tjöldin. Og vegna þess að það eru kosningar þá var hugsunin að hafa smá húmor, létta fólki lundina og leyfa því að brosa,“ segir Ásgeir.

Aðspurður hvort ekki hefði verið erfitt að fá pólitíkusana til að taka þátt sagðist Ásgeir ekki hafa gefið þeim neitt val.

„Ég sneri upp á handlegginn á þeim og fékk að lokum leyfi frá þeim til að sýna þessar óvanalegu myndir,“ segir Ásgeir og hlær.

„Raunveruleikinn er oft skondnari en fólk sér í fréttum.“

S. Björn Blöndal, borgarstjóraefni Bjartrar framtíðar, og frambjóðendur Pírata munu formlega opna sýninguna með því að afhjúpa einstakar myndir af sér, þar sem þau sýna á sér nýjar og óvæntar hliðar.

„Ég býst við því að þurfa að fela mig undir pilsfaldinum á vertinum þegar borgarstjóraefnin koma hlaupandi á eftir mér,“ segir Ásgeir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×