Menning

Blása lífi í þöglar styttur

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Sigríður Þóra: "Við lögðum upp með það markmið að blása lífi í garðinn og þessar þöglu styttur Einars með léttleika og húmor í fyrirrúmi.“
Sigríður Þóra: "Við lögðum upp með það markmið að blása lífi í garðinn og þessar þöglu styttur Einars með léttleika og húmor í fyrirrúmi.“ Vísir/Vilhelm

Ungir listamenn leggja garð Listasafns Einars Jónssonar undir sig á morgun með sýningu á innsetningum, hlóðverkum og skúlptúrum.
"Að sýningunni stendur hópur sem er í kúrs sem heitir Sýningastjórnun og sýningagerð og bæði nemendur úr myndlist í Listaháskóla Íslands og listfræði í Háskóla Íslands sækja,“ segir Sigríður Þóra Óðinsdóttir, sem bæði kemur að sýningagerðinni og á verk á sýningunni. „Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir og Jón Proppé sem kenna námskeiðið fengu leyfi hjá safni Einars Jónssonar til þess að setja upp sýningu í garðinum og stukku auðvitað á það.“

Hópurinn samanstendur af 26 nemendum sem vinna að uppsetningu sýningarinnar undir leiðsögn kennaranna tveggja. „Þau sem sýna eru ungir listamenn sem hafa útskrifast á síðustu tíu árum og auk þess eru þrjú nemendaverk á sýningunni,“ segir Sigríður Þóra. „Þetta eru tólf verk, ýmist einstaklingsverkefni eða hópvinna, og við lögðum upp með það markmið að blása lífi í garðinn og þessar þöglu styttur Einars með léttleika og húmor í fyrirrúmi.“

Verkin eru af ýmsum toga; gjörningar, hljóðverk og skúlptúrar og öll unnin út frá verkum Einars Jónssonar eða honum sem persónu. „Sumir vinna út frá ákveðnum verkum í garðinum en aðrir vinna með hugmyndir Einars, hvernig hann sá sig sem listamann og hann sjálfan sem manneskju. Þannig að öll verkin tengjast honum á einn eða annan hátt,“ segir Sigríður Þóra.

Sýningin hefst klukkan 15 á morgun og stendur til klukkan 17.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.