Tónlist

Neil Young æfir á Íslandi

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Neil Young ætlar að nýta nýju Laugardalshöllina til æfinga fyrir tónleikaferðalagið.
Neil Young ætlar að nýta nýju Laugardalshöllina til æfinga fyrir tónleikaferðalagið. vísir/getty
„Hann ætlar að nota nýju Laugardalshöllina sem æfingahúsnæði fyrir tónleikaferðalagið sem hefst hér á landi 7. júlí næstkomandi,“ segir Tómas Young skipuleggjandi ATP hátíðarinnar.

Tónlistarmaðurinn Neil Young kemur hingað til lands viku fyrir tónleika sína sem fram fara 7. júlí og ætlar hann að nýta nýju Laugardalshöllina sem æfingahúsnæði fyrir tónleikaferðalagið sem hefst hér á landi.

„Hann kemur til Íslands líklega 2. eða 3. júlí, þá verður nýja Laugardalshöllin tilbúin til tónleikahalds og verður því nýtt til æfinga.“

Ekki er vitað hvort Neil Young ætlar að skoða landið frekar þennan tíma sem hann dvelur hér á landi. „Það er óvíst hvað hann gerir en hann mun allavega eyða megninu af tímanum á æfingum í höllinni.“

Young kemur fram ásamt hljómsveit sinni Crazy Horse og má því búast við mikilli stemningu. „Hann mun klárlega fara yfir sín þekktustu lög en það er aldrei að vita nema eitthvað nýtt heyrist í Höllinni,“ segir Tómas um tónleikana.

Tónleikar Neils Young eru hluti af ATP-tónlistarhátíðinni sem fram fer helgina eftir tónleika Youngs, 10. til 12. júlí á Ásbrú í Keflavík. Stórhljómsveitirnar Portishead og Interpol eru á meðal þeirra hljómsveita sem koma fram á hátíðinni en þó á enn eftir að bæta við bæði innlendum og erlendum listamönnum á ATP-hátíðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×