Menning

Séð og heyrt náði aldrei í hann

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Það er full ástæða til að rifja upp afrek Geirs áður en hann verður settur í huldumannahópinn,“ segir Hjalti Rögnvaldsson leikari.
„Það er full ástæða til að rifja upp afrek Geirs áður en hann verður settur í huldumannahópinn,“ segir Hjalti Rögnvaldsson leikari. Fréttablaðið/Pjetur
„Ég hef fókusinn á því sem Geir lagði áherslu á í vali sínu á rússneskum skáldum og hann lagði mesta vinnu í að þýða Majakovskí,“ segir Hjalti Rögnvaldsson leikari sem hefur undirbúið dagskrá um ljóðaþýðingar Geirs Kristjánssonar úr rússnesku.

Hann verður líka flytjandi hennar.

Hjalti segir þýðingarnar hafa birst á víð og dreif í bókum og tímaritum gegnum tíðina. „Ég átti megnið af þessu í mínum hillum. Ætli það sé ekki talið einkenni á bókaormum,“ segir hann kíminn.

Geir var fæddur í Héðinsvík á Tjörnesi 1923. Hann lauk stúdentsprófi frá MA 1943 og eftir nám við Háskóla Íslands nam hann slavneskt nám og bókmenntir í Uppsölum í Svíþjóð og síðan bókmenntir í Englandi og Frakklandi. Í Reykjavík vann hann alla tíð við ritstörf auk þess að kenna rússnesku við MÍR. Hann lést 18. september 1991.

Að Majakovskí meðtöldum eru það fjórtán skáld sem flutt verður eftir í MÍR á laugardaginn, að sögn Hjalta, allt frá guðföður gullaldar í rússneskri ljóðlist, Alexander Púshkín sem var fæddur 1799. „Tveir eru fæddir 1933, þeir eru yngstir,“ upplýsir hann.

Yfirskrift dagskrárinnar, Hin græna eik, er titill bókar sem inniheldur ljóðaþýðingar Geirs eftir rússnesk skáld og nokkra Spánverja en Spánverjarnir koma ekkert við sögu á laugardaginn.

„Dagskráin er byggð upp á tengslum Geirs við MÍR og tekur sextíu og sex og hálfa mínútu.“ segir Hjalti og telur fulla ástæðu til að rifja upp afrek Geirs áður en hann verður settur í huldumannahópinn.

„Sjálfur var hann dulur, fékk sér aldrei kaffi á auglýsingastofum og Séð og heyrt náði aldrei í hann.“



Meðal merkra verka Geirs eru:

• Útvarpsleikritið Snjómokstur var frumflutt af Þorsteini Ö. Stephensen og Rúrik Haraldssyni fyrir um 40 árum og er endurflutt annað slagið.

• Smásagnasafnið Stofnunin kom út 1956.

• Geir ritstýrði tímaritinu MÍR frá 1950-1959.

• Ský í buxum og fleiri kvæði, þýðingar eftir Vladímír Majakovskí 1965.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×