Innlent

Mýflug taldi tryggingavernd viðunandi

Erla Björg Gunnarsdóttir og Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Forsíða Fréttablaðsins í gær þar sem fjallað var um tryggingamál Mýflugs.
Forsíða Fréttablaðsins í gær þar sem fjallað var um tryggingamál Mýflugs.
Mat stjórnar Mýflugs var að tryggingavernd félagsins væri viðunandi, þegar stjórn hittist á fundi til að ræða flugslysið á Akureyri 5. ágúst síðastliðinn að kvöldi slysdagsins og til þess fallin að tryggja að staðið yrði við allar skuldbindingar.

Þetta kemur fram í svari Sigurðar Bjarna Jónssonar, stjórnarformanns Mýflugs, við fyrirspurn blaðsins. Ekkert hafi komið á daginn sem breyti þessu mati.

„Ég get þó staðfest að álitaefni það sem Fréttablaðið fjallaði um í gær varð félaginu tilefni til að yfirfara tryggingar flugmanna sinna fyrir jól. Hvorki fyrir, né eftir þá skoðun hefur vafi leikið á því að staðið yrði við skuldbindingar gagnvart þeim, né öðrum sem hagsmuna eiga að gæta gagnvart félaginu,“ segir Sigurður.

Þegar flugslys verði segir hann ekki óeðlilegt að þeir sem hagsmuna eigi að gæta gagnvart félaginu hugsi sinn gang.

„Slíkum málum mætum við með skilningi og auðmýkt. Okkar skylda er að bregðast við hverju sinni eins og tilefni er til, leysa úr álitamálum og sjá til þess að eftirmálar slyssins verði okkur til sóma,“ segir Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×