Innlent

Boccia-meistari færir VHS-myndir á USB-lykla

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kristján Vignir Hjálmarsson.
Kristján Vignir Hjálmarsson.
Kristján Vignir Hjálmarsson, 30 ára öryrki og keppnismaður í boccia, hefur komið á fót þjónustu fyrir landsmenn til þess að fjármagna keppnisferðir framtíðarinnar í íþrótt sinni. Kristján ætlar að koma efni af VHS-spólum yfir á USB-lykla.

„Já, það hafa margir haft samband,“ segir Kristján Vignir í samtali við Vísi. Hann er ekki viss um nákvæmlega hve margir en þeir séu þónokkrir.

Kristján er ekki aðeins áhugamaður um boccia heldur spilar hann líka keilu af mikilli ástríðu. Aðspurður hvor íþróttin heilli hann meira svarar Kristján:

„Þetta er eiginlega jafn skemmtilegt. Maður fær samt meira út úr boccia,“ segir Kristján. Hann segist fara allajafna tvisvar á ári út fyrir landsteinana í keppnisferðir.

Vafalítið gætu margir hugsað sér að koma efni af VHS-spólum í sínum eigum á tölvutækt form líkt og Kristján Vignir bíður upp á. Hann rukkar 1500 krónur fyrir hvern klukkutíma af efni en vilji fólk marga klukkutíma lækkar verðið.

„Þetta er mjög skemmtilegt og ekkert flókið,“ segir Kristján.

Nánar á lesa um framtak Kristjáns á Facebook-síðu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×