Sýningarnar Roundabouts og Efsta lag verða opnaðar í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum í dag klukkan 16. Á sýningunni Roundabouts eru verk eftir sænska listamanninn Andreas Eriksson og hann er jafnframt sýningarstjóri sýningarinnar Efsta lags en þar eru bæði verk eftir hann sjálfan og Jóhannes S. Kjarval.
Verkin á sýningunni Roundabouts eru frá síðustu tíu árum og eru heildaryfirlit verka listamannsins, málverk, ljósmyndir, höggmyndir, kvikmyndir og vefnaður. Andreas Eriksson hefur unnið að málaralist í rúma tvo áratugi en hann sækir oft hugmyndir sínar til náttúrunnar og í umhverfið kringum heimili sitt í Kinnekulle á Vestur-Gotlandi í Svíþjóð, þar sem hann er einnig með vinnustofu.
Á morgun klukkan 15 munu þeir Eriksson og Hafþór Yngvason, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, spjalla við gesti um sýningarnar á Kjarvalsstöðum.
Sýnir bæði eigin verk og verk Kjarvals
