Innlent

Snjó mokað fyrir 500 milljónir

Svavar Hávarðsson skrifar
Fara þarf hverja leið ítrekað.
Fara þarf hverja leið ítrekað. fréttablaðið/pjetur
Hver sólarhringur sem Reykjavíkurborg heldur úti öllum sínum tækjum og mannskap við snjómokstur kostar tíu til fimmtán milljónir króna. Strax í haust var kostnaður vegna snjómoksturs 380 milljónir og er gert ráð fyrir að árið kosti hálfan milljarð þegar það verður gert upp.

Samkvæmt upplýsingum borgarinnar voru 35 bílar og vinnuvélar notaðar við snjóhreinsun og hálkueyðingu á umferðargötum í gær, og eru þá ótaldar vélar Vegagerðarinnar, sem sinnir snjóhreinsun á stofnbrautum að miklu leyti. Heildarlengd gatna sem þarf að hreinsa er 445 kílómetrar, og til að ryðja öllum snjó þarf að þræða þær ítrekað.

Á stígum og gangstéttum voru þrettán sérútbúnar dráttarvélar með plóga og sanddreifingarbúnað á ferðinni. Heildarlengd stíga og gangstétta sem falla undir vetrarþjónustu eru 687 kílómetrar.

Sérstakur hópur með sex traktorsgröfur var einnig ræstur út en hann sér um hreinsun á strætóbiðstöðvum, sem og við leikskóla, grunnskóla, sundlaugar og nokkrar stofnanir Reykjavíkurborgar. Þá er um 25 manna hópur frá hverfastöðvunum sem sér um mokstur á stöðum sem tæki komast ekki að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×