Innlent

Drónarnir hefðu getað hjálpað til við leitina að Ástu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Frá afhendingu drónanna í gær í húsnæði Dagrenningar á Hvolsvelli, fjölskylda Ástu, stjórn Ástustjóðsins og formenn sveitanna á Hellu og Hvolsvelli.
Frá afhendingu drónanna í gær í húsnæði Dagrenningar á Hvolsvelli, fjölskylda Ástu, stjórn Ástustjóðsins og formenn sveitanna á Hellu og Hvolsvelli. Vísir/Magnús Hlynur
Flugbjörgunarsveitin á Hellu og  björgunarsveitin Dagrenning Hvolsvelli eru fyrstu björgunarsveitir landsins til að fá Dróna eða  sjálfstýrt flygildi í sína þjónustu því sveitirnar fengu fjögur slíkt tæki gefins síðdegis í gær úr Ástusjóði, minningarsjóði Ástu Stefánsdóttur, sem lést af slysförum í Bleiksárgljúfri í Fljóthlíð í sumar.

Fjölskylda Ástu,björgunarsveitarmenn og lögreglumenn voru viðstaddir þegar gjafaafhendingin fór fram. Drónarnir fjórir voru valdir í samstarfi við björgunarsveitirnar og eru tveir þeirra með hitamyndavél. Andvirði gjafarinnar er um tvær milljónir króna.

„Þetta er verkefni sem við erum mjög spennt fyrir því við höldum að Drónarnir geti aðstoðað björgunarsveitirnar mjög mikið, sérstaklega við fyrstu leit þegar það koma útköll,“ segir Helga Hauksdóttir, formaður Ástusjóðsins.

Björgunarveitarmennirnir fara nú í það að læra á Drónana og sjá hvernig þeir geta nýst í útkallsverkefnum.Vísir/Magnús Hlynur
Björgunarsveitafólkið tók strax upp úr kössunum og skoðaði drónana spennt að fá að vita hvernig þeir munu virka. Leitin í sumar af Ástu var mjög erfið.

„Já, hún var mjög erfið og tók langan tíma með björgunarsveitarmönnum af öllu landinu. Þetta tók á og svona myndavélar hefðu pottþétt getað hjálpað eitthvað í fyrstu viðbrögðum, ég efast ekki um það“, segir Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, formaður Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu.

Björgunarsveitarmenn eru ánægðir með þann þakklætisvott, sem fjölskylda Ástu og Ástusjóðurinn sýnir þeim.

„Já, það er gríðarlega mikilvægt, manni hlýnar verulega um hjartarætur þegar svona er tekið eftir okkar starfi og fólk sýnir í verki þann hug sem það ber til okkar eins og Íslendingar gera ávallt við björgunarsveitirnar sínar“, segir Jón Hermannsson, björgunarsveitarmaður í Dagrenningu á Hvolsvelli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×