Innlent

Leggja fram kæru vegna skemmdanna

Eins og sjá má er ljótt um að litast þar sem bílar keyrðu yfir leiði í garðinum.
Eins og sjá má er ljótt um að litast þar sem bílar keyrðu yfir leiði í garðinum. Mynd/Helen Sif/Halldóra Ólafsdóttir
„Ég held ekki að þetta hafi verið ætlunarverk neins og ætla engum að vera svo illa þenkjandi að svo geti verið. En þetta er kæruleysi því menn eru að aka þarna þrátt fyrir tilkynningar um að hliðarvegir séu ófærir. Þetta er ákveðin ófyrirleitni og þarna vantar að hlýða því sem tilkynnt er,“ segir Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkur.

Greint var frá því á Vísi í gær að unnin hafi verið helgispjöll í Gufuneskirkjugarði á að minnsta kosti tveimur stöðum yfir jólin. Ökutækjum var ekið yfir göngustíga og að minnsta kosti tíu legstæði.

Tjónið er þó nokkuð og verður kostnaðurinn töluverður. Að sögn Þórsteins mun hann þó ekki lenda á aðstandendum. „Um leið og snjóa léttir verður hægt að vinna í því að lagfæra þetta og það verður okkar fólk sem gerir það. Kostnaðurinn mun ekki lenda á aðstandendum,“ segir hann.

Myndir náðust af sökudólgunum og verður kæra lögð fram til lögreglu eftir helgi. Þórsteinn kallar þó eftir aðstoð almennings, en hafi einhver vitneskju um málið biður hann þann hinn sama um að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×