Keyrt var á vopnaðan mann á Miklubraut í Reykjavík á laugardagskvöld. Vitni að atvikinu sem vill ekki láta nafns síns getið segist aldrei hafa séð annað eins.
„Þetta var bara mjög hræðilegt. Ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins hér í Reykjavík,“ segir maðurinn. Hann hafði lagt bíl sínum á bílastæði við Miklubraut en mbl.is greindi fyrst frá málinu.
„Svo sé ég að það kemur þarna maður hlaupandi á Miklubrautinni á móti umferð. Hann er í hvítum hlírabol, snoðaður og með einhvers konar vopn, sleggju eða eitthvað slíkt. Síðan kemur grár Audi akandi og neglir bara inn í hann. Maðurinn kastast þá á framrúðu bílsins en hann stendur upp og þá er aftur keyrt á hann. Síðan er þessum Audi bara ekið í burtu.“
Hann segir að maðurinn hafi því næst hlaupið inn á bílastæðið. Þar hafi hann reynt að komast inn í bíla sem þar voru og kastað sleggjunni frá sér.
„Hann kom þarna að bílnum mínum en hleypur framhjá. Mér sýndist hann vera í annarlegu ástandi og hann gekk eiginlega bara berserksgang þarna. Ég heyrði svo frá vinkonu minni sem var líka í bíl þarna að hann hafi reynt að komast inn í bílinn hennar og hún var dauðhrædd.“
Lögreglan mætti svo á staðinn nokkrum mínútum seinna að sögn vitnisins.
„Ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins hér í Reykjavík“
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
