Innlent

Mótmælin skiluðu árangri: Lækka verð á kaffi, hafragraut og súpu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mótmælin voru á föstudaginn og viku seinna skila þau árangri þar sem verð lækkar á morgun.
Mótmælin voru á föstudaginn og viku seinna skila þau árangri þar sem verð lækkar á morgun. Vísir/Valli/Ernir
Vöruverð lækkar í Málinu, matsölu stúdenta í Háskólanum í Reykjavík, á morgun. Þá verður vöruúrval bætt og þjónusta einnig. Breytingarnar koma viku eftir að stúdentar við skólann mótmæltu háu vöruverði, þjónustu og vöruúrvali í matsölunni.

Andri Sigurðsson, formaður Stúdentafélags HR, segist ánægður með hversu hratt málið leystist.

„Framkvæmdastjóri Málsins hafði samband við okkur þegar boðað var til mótmælanna. Við settumst svo niður með henni um helgina og vorum þá með lista yfir það sem við höfðum heyrt frá stúdentum að mætti bæta. Það var meðal annars vöruúrvalið og verðið en einnig hvað það voru fáar boðleiðir til að láta þau hjá Málinu vita hvað mætti betur fara. Það verður því einnig bætt úr því og fundinn farvegur fyrir það hvernig stúdentar geta komið sínum skoðunum á framfæri,“ segir Andri í samtali við Vísi.

Aðspurður hvort að skjót viðbrögð Málsins hafi komið Andra á óvart segir hann:

„Bæði já og nei. Ég hafði ekki verið í neinum samskiptum við stjórnendur Málsins fyrr. Við, stúdentar, og svo starfsfólk skólans erum hins vegar eini markhópur matsölunnar. Ég held því að þau hafi kannski áttað sig á að því að þau áttu ekki neina aðra kosti en að koma til móts við okkur. Þau vita einfaldlega að ef að fólk er ósátt þá bara sleppir það því að versla við Málið.“

Andri Sigurðsson, formaður Stúdentafélags HRVísir/Ernir
Andri segist halda að það verði meira samstarf á milli Málsins og Stúdentafélagsins í framtíðinni.

„Þetta snýst bara um að hlusta á hvað fólkið vill og finna einhvern milliveg. Það er kannski ekki alltaf hægt að koma til móts við alla og við verðum að skilja það en breytingarnar sem taka gildi á morgun eru án efa til mikilla bóta.“

Á meðal þess sem lækkar í verði á morgun eru súpur, hafragrautur, kaffi og ábót á heitum mat.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×