Innlent

Forsætisráðherra vill skoða sátt á vinnumarkaði um launahækkun til lækna

Heimir Már Pétursson skrifar
Forsætisráðherra segir ekki hægt að horfa til kjaradeilu lækna án tillitis til annarra þátta í samfélaginu, meðal annars til væntanlegra samninga á almennum markaði. Formaður Samfylkingarinnar segir forsætisráðherra ekki geta talað um þessi mál sem áhorfandi og sagt á ábyrgð annarra að leysa málið.

Í dag eru þrjár vikur liðnar frá því fyrstu aðgerðir lækna hófust en þriðja verkfallslota þeirra hófst á miðnætti með þeim afleiðingum m.a. að yfir þúsund læknaviðtöl féllu niður í dag ásamt annarri þjónustu. En lítið hefur verið fundað í deilunni,  þótt fundur sé boðaður á morgun.

„Hversu lengi getur þetta gengið svona áfram? Hversu lengi er hægt að halda áfram án þess að samið sé í þessari deilu ef það á ekki að valda varanlegu tjóni fyrir samfélagið,“ spurði Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar á Alþingi í dag.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði ráðherra eins og aðra hafa áhyggjur af verkfalli lækna. Hins vegar væri ekki hægt að horfa á verkfallið án tilllits til almennrar stöðu á vinnumarkaði.

„Þannig að við hljótum að spyrja hvort að hægt sé að mynda einhvers konar almenna sátt? Þá má m.a. spyrja stjórnarandstöðuna en ekki hvað síst aðila vinnumarkaðarins hvort að menn líti þannig á mál að staðan réttlæti breytingar á kjörum lækna; bætur umfram það sem hægt væri að semja um í fyrsta áfanga annars staðar,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Virðulegi forseti, fyrst af öllu, þá getur hæstvirtur forsætisráðherra ekki komið hér upp og talað eins og hann sé áhorfandi að þessari alvarlegu deilu. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hæstvirtur forsætisráðherra og hæstvirtur fjármálaráðherra hafi ekki fundað með formanni samninganefndar ríkisins í þessari deilu. Það eru þá alvarleg afglöp ef svo er,“ sagði Árni Páll.

En samkvæmt heimildum fréttastofunnar funduðu leiðtogar stjórnarflokkanna með formanni samninganefndar ríkisins fyrir helgi og fundur milli þeirra var einnig ráðgerður í dag.

Árni Páll sagði að forsætisráðherra gæti ekki skýlt sér á bakvið að það væri annarra að leysa þessa deilu, þegar hann hefði getað tryggt frið á vinnumarkaði út kjörtímabilið með samningum í lok síðasta árs.

„Hann er síðan búinn að gera allt sem hann mögulega getur til að sprengja upp samstarf við aðila vinnumarkaðarins. Og hann verður ósköp einfaldlega að búa sjálfur við þær aðstæður  sem hann hefur þannig skapað. Það er ekki verkefni stjórnarandstöðunnar eða aðlila vinnumarkaðarins að skera hæstvirtan forsætisráðherra niður úr getuleysi hans til að eiga heilbrigð samskipti á vinnumarkaði,“ sagði formaður Samfylkingarinnar.

Forsætisráðherra sagði alrangt að stjórnvöld hefðu sprengt upp samstarf við aðila vinnumarkaðrins og vel væri fylgst með læknadeilunni. En ítrekaði að skoða þyrfti heildarmyndina vildu menn ná sáttum.

„Og þess vegna hlýtur að vera eðlilegt að spyrja hvort að hækkanir hjá læknum, umfram það sem samið hefur verið um annars staðar væri til þess fallið að, eins og háttvirtur þingmaður orðaði það, að sprengja upp sátt við aðila vinnumarkaðarins,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×