Innlent

„Ég mæti til vinnu í bolnum á eftir"

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá Michael Jón Clarke í bolnum.
Hér má sjá Michael Jón Clarke í bolnum.
„Ég mæti til vinnu í bolnum á eftir,“ segir Michael Jón Clarke, tónlistarkennari. Hann hefur látið búa til bol með mynd af fjármálaráðherranum Bjarna Benediktssyni og utanríkisráðherranum Gunnari Braga Sveinssyni. Þar er einnig mynd af lúxusjeppa og er eftirfarandi texti á bolnum

„Ráku ræstingakonur en keyptu sér lúxusbíla. Djöfulsins snillingar!“

„Já, mér finnst að maður verði að finna vettvang til sýna skoðanir sínar. Og finnst að þær eigi að liggja fyrir; vera augljósar,“ segir Michael sem er búsettur á Akureyri. Hann lét gera bolinn hjá fyrirtæki í bænum. „Já, ég keypti mér bol í Hagkaup, fann þessar myndir á netinu og lét prenta. Þetta kom rosalega vel út. En ég er ekki viss um að allir séu jafn ánægðir með þetta,“ bætir hann við.“

Michael stendur nú í kjarabaráttu eins og aðrir tónlistakennarar. „Ég er í öðru starfsmannafélagi en flestir aðrir kennarar og við erum ekki í verkfalli. Við erum fimm tónlistakennarar sem erum ekki í verkfalli, sem sitjum hér eftir. Okkur finnst okkar staða ofboðslega erfið.“

Michael segir að kröfur tónlistakennara séu afar sanngjarnar. „Við erum ekki að fara fram á einhver lúxuslaun. Bara að við verðum með sambærileg laun og grunnskólakennarar. Við erum til dæmis ekki að fram á að fá sömu laun og háskólakennarar, sem eru samt sjálfir að fara í verkfall. En ef maður skoðar menntun margra tónlistakenna, þá eru þeir yfirleitt með mjög sambærilega menntun og háskólakennarar. Við erum bara að fara fram á eðlileg laun.“

Hann segir bolinn samt vera víðtækari ádeilu en bara að einblína á kjarabaráttu tónlistakennara. „Þetta á bara við um allt ástandið hér á landi, sem er alls ekki nógu gott.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×