Innlent

Vill að borgarstjórn styðji áfengisfrumvarpið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hildur Sverrisdóttir borgarfulltúi.
Hildur Sverrisdóttir borgarfulltúi.
Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vill að borgarstjórn samþykki ályktun til að styðja frumvarp Vilhjálms Árnasonar um breytingar á lögum um áfengisverslun. Hún lagði fram tillögu þess efnis á borgarstjórnarfundi í dag.

Hildur flutti tillöguna fyrir hönd sjálfstæðismanna. Hún vísar til þess að í aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir áherslum sem kallast „Kaupmaðurinn á horninu“ sem fela í sér að dagleg verslun og þjónusta sé í sem mestri nálægð við íbúana svo að þeir geti sótt sem mest af sinni daglegri verslun og þjónustu í nærumhverfi sínu en þurfi ekki að sækja hana á bíl.

„Ég tel að það sé sjálfsagt að borgarstjórn Reykjavíkur, sem hefur skipulagsvald og ábyrgð, styðji allar þær tillögur sem muni búa til betra skipulag og sjálfbærari hverfi. Og þetta er eitt af því,“ segir Hildur. Það sé mjög augljóst að hverfi borgarinnar geti orðið sjálfbærari ef algeng neysluvara eins og áfengi væri seld í hverfunum sjálfum. Það þyrfti þá ekki að keyra hverfanna á milli.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lagði til að málinu yrði vísað til borgarráðs, það væri umfangsmikið og nýtt að tillaga af þessu tagi væri lögð fram. „Við erum ósammála því. Það er ekki lengra síðan en í vor að borgarstjórn samþykkti að hvetja ríkisstjórnina til að halda þjóðaratkvæði um ESB-aðildarviðræður,“ segir hún. Ekki hafi það verið umfangsminna mál eða meira tengt Reykjavíkurborg. Hildur vonar að málið dagi ekki upp í stjórnkerfi borgarinnar heldur verði afgreitt.

„Það er skrýtið að meirihluti sem hefur ekki gert neitt annað en hampa aðalskipulaginu og ekki síst öllum áherslum um sjálfbær hverfi skuli allt í einu ekki kannast við að það skipti máli,“ segir Hildur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×