Innlent

Eina sjoppan í Hvalfirði lokuð um helgina: Gaui litli stendur vaktina og verður með heitt á könnunni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gaui litli er tilbúinn í helgina og tekur vel á móti fólki í Hernámssetrinu.
Gaui litli er tilbúinn í helgina og tekur vel á móti fólki í Hernámssetrinu. Vísir
Svo virðist sem hin sögufræga sjoppa Ferstikla í Hvalfirði verði lokuð um helgina en búast má við mikilli umferð um fjörðinn þar sem Hvalfjarðargöngin eru lokuð og vetrarfrí er í grunnskólum Reykjavíkur.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Ferstiklu var sjoppunni lokað þann 28. september og eftir því sem Vísir kemst næst er eigandinn í útlöndum.

Vísir hafði samband við Gauja litla sem rekur Hernámssetrið að Hlöðum í Hvalfirði. Hann var að hræra í randabrauð með rjóma og segist tilbúinn í helgina.

„Já, ég verð með kaffi og með því og safnið verður opið. Það verður spennandi að sjá hversu margir koma hér við. Menn eru náttúrulega ekki vanir að keyra Hvalfjörðinn en vonandi stoppar fólk og gerir menningarferð úr þessu,“ segir Gaui litli.

Hann ætlar að opna snemma í fyrramálið og hafa opið alla helgina. Hann segist þó ekki hafa hugmynd um hversu mikil umferð verður en laugardagstraffík um fjörðinn hefur aukist síðustu ár.  

„Það er allavega klósett hér ef mönnum verður brátt í brók,“ segir Gaui, léttur í bragði.

Hvalfjarðargöngin verða lokuð frá klukkan 20 í kvöld og þangað til klukkan 6 á mánudagsmorgun. Marinó Tryggvason hjá Speli segir um hefðbundinn lokunartíma að hausti sé að ræða en loka þurfi göngunum yfir lengri tíma nú þar sem malbika eigi akreinina sem liggi frá norðri til suðurs. Hin akreinin verði svo malbikuð að ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×