Innlent

„Það er kraumandi óánægja undir niðri“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/vilhelm
Formaður starfsmannafélags Kópavogs segir allt benda til þess að Kópavogsbær allur muni fara í lamasess vegna yfirvofandi verkfalls félagsmanna. Mikil óánægja ríki á meðal félagsmanna og segir enga sýnilega lausn í nánd.

„Það er kraumandi óánægja undir niðri,“ segir Jófríður Hanna Sigfúsdóttir, formaður starfsmannafélags Kópavogs (SFK).

Yfirvofandi er verkfall félagsmanna SFK, náist samningar ekki fyrir 14. október næstkomandi. Bærinn mun sitja eftir í lamasessi en félagsmenn SFK eru rúmlega þúsund. Gengið var til kosninga um verkfallsaðgerðir á dögunum og samþykkti 89,89 prósent félagsmanna að leggja niður störf dagana 14., 15., 21. og 22. október næstkomandi. Boðað verður til allsherjarverkfalls 1. nóvember, nái deiluaðilar ekki sáttum. Af 710 manna úrtaki kusu 446 félagsmenn.

„Við myndum lama starfsemi leik- og grunnskóla. Sundlaugarnar myndu að öllum líkindum loka og íþróttamannvirki loka. Hér lamast allt á skrifstofunni. Innheimta, bókhald, þjónustuver, velferðarsvið, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Jófríður.

Kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjara í júlí síðastliðnum. Öll önnur bæjarstarfsmannafélög innan BSRB höfðu á undirritað og samþykkt framlengingu á kjarasamningum sínum en á það féllust félagsmenn SFK ekki.

„Kröfur félagsmanna SFK eru í raun bara þær að þeir vilja hærri laun. Þeir höfnuðu því sem aðrir höfnuðu, sem aðrir höfðu samþykkt og vilja meiri hækkun en það sem önnur bæjarstarfsmannafélög hafa boðið upp á.“

Frá því í ágúst hefur verið fundað jafnt og þétt í húsakynnum ríkissáttasemjara en var viðræðum formlega slitið 8. september síðastliðinn. Aftur verður sest við samningaborðið hinn 1. október næstkomandi í þeirri von um að sættir náist. Jófríður segir þó að eins og staðan er núna, sé engin lausn í sjónmáli.

„Eins og er, þá nei. Við sjáum enga lausn,“  segir Jófríður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×