Fótbolti

Carragher: Sturridge fullkominn framherji fyrir England

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Lykilmenn í sóknarlínu Englands
Lykilmenn í sóknarlínu Englands vísir/getty
Jamie Carragher segir að fyrrum samherji sinn hjá enska úrvalsdeildarliðinu Liverpool, Daniel Sturridge sé hættulegasti sóknarmaður Englands fyrir heimsmeistaramótið í Brasilíu í sumar.

Sturridge skoraði 21 mark í ensku úrvalsdeildinni í vetur, aðeins félagi hans hjá Liverpool, Luis Suarez, gerði betur.

Hinn 24 ára gamli Englendingur verður í lykilhlutverki fyrir þjóð sína á HM í sumar eftir frábært tímabil. Jamie Carragher fyrrum varnarmaður Liverpool segir Sturridge hafa allt sem þarf til að slá í gegn á stóra sviðinu.

„Hann er frábær slúttari, það er ekki talað nógu mikið um það,“ sagði Carragher við sjónvarpsstöð Liverpool.

„Það er enginn betri í að klára færin. Hann er fljótur, hann er sterkur. Hann er nútíma framherji. Hann getur leikið úti á kanti og fremstur.

„Nútíma framherji er ekki einhver sem lúrir upp á topp í leit að marki og gerir ekkert annað. Nútíma leikmaður verður að geta hreyft sig og gert meira í sínum leik.

„Daniel Sturridge er fullkominn gerð af leikmanni. Ég held að þetta tímabilið hafi enginn enskur sóknarmaður leikið betur en hann,“ sagði Carragher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×