Sport

ÍM50 hafið í Laugardalnum | Karen setti tvö telpnamet

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir.
Eygló Ósk Gústafsdóttir. Vísir/Valli
Íslandsmótið í sundi í 50 metra laug hófst í Laugardalslauginni í dag þar sem tvö telpnamet voru sett. Fyrsta úrslitakvöldið af þremur hefst svo klukkan 17.30 í kvöld.

Fyrsti hluti hófst í morgun með 400m skriðsundi. Þar báru hæst tvö telpnamet hinnar 14 ára gömlu Karenar Mist Arngeirsdóttur úr ÍRB.

Hún synti 100m bringusund á 1:15,66 mínútum og bætti með því níu ára gamalt met Rakelar Gunnlaugsdóttur úr ÍA. Millitíminn eftir 50m í sundinu var einnig bæting á telpnameti Rakelar frá 2005 en Karen synti fyrstu 50 metrana á 35,66 sekúndum.

Fyrsta úrslitakvöldið hefst sem fyrr segir klukkan 17.30 í kvöld en þar má búast við spennandi keppni í 200m baksundi þar sem KristinnÞórarinsson og Davíð Hildiberg Aðalsteinsson munu berjast um gullið.

Eygló Ósk Gústafsdóttir ætlar sér stóra hluti í 200m baksundi en hún er með besta tímann inn í úrslit og Hrafnhildur Lúthersdóttir syndir 100m bringusund eftir að hafa náð besta tímanum inn í úrslit á undan Kareni Mist.

Bryndís Rún Hansen og Ingibjörg K. Jónsdóttir eru með tvo bestu tímana inn í úrslit í 50m skriðsundi og má búast við spennandi keppni þar. Þá taka þær Hrafnhildur og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir slaginn í 200m fjórsundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×