Innlent

Heimskautsbaugurinn í Grímsey fær nýtt kennileiti

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Verkið sjálft.
Verkið sjálft.
Kristinn E. Hrafnsson og Studio Granda sigruðu hugmyndasamkeppni um nýtt kennileiti fyrir heimskautsbauginn í Grímsey.

Niðurstaða dómnefndarinnar var tilkynnt í gær, mánudaginn 10.mars, í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Dómnefndin var einróma um vinningstillöguna. Hönnunarmiðstöð greinir frá.

Í lok síðasta árs efndi Akureyrarbær í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands til hugmyndasamkeppni um nýtt kennileiti fyrir heimskautsbauginn í Grímsey. Kennileitinu er ætlað að vekja athygli á Grímsey sem ferðamannastað. Kennileitið á að styrkja Grímsey og stöðu hennar sem nyrsta odda íslands, á heimskautsbaugnum. Þá var leitað að myndrænu kennileiti eyjunnar sem gæti orðið aðdráttarafl og hægt væri að útfæra á ýmsa vegu, til dæmis við gerð minjagripa.

Verkið heitir Hringur og Kúla og er grásteinskúla sem er 3 metrar í þvermál. Kúlunni er ætlað að standa á heimskautsbaugnum þar sem hann er á hverjum tíma, en samkvæmt útreikningum færist hann að jafnaði um 14.5 metra á ári vegna svokallaðrar pólriðu jarðar og er nú á 66° 33.9 N. Kúlan sýnir einungis legu heimskautsbaugsins. Sá sem gengur í kringum hana hefur farið norður fyrir heimskautsbaug og suður fyrir hann aftur. Kúlunni er velt á rétta breidd að vori ár hvert og þokast hún þannig norður af eyjunni nálægt árinu 2047.

Samkeppnin var opin hönnuðum, arkitektum og myndlistamönnum. Skilafrestur gagna var til 31. janúar 2014 og verðlaunaféð var ein milljón króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×