Innlent

Allir þingmenn fengu iPad

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Við hverjar kosningar er ákveðið hvaða tæki og tól þingmenn fá. Þeir fengu nú eins og áður fartölvu en spjaldtölva bættist við.
Við hverjar kosningar er ákveðið hvaða tæki og tól þingmenn fá. Þeir fengu nú eins og áður fartölvu en spjaldtölva bættist við. VÍSIR/GVA
Þingmenn hafa nú allir fengið spjaldtölvu af gerðinni iPad. Grundvöllurinn fyrir þessari ákvörðun er að minnka pappírsnotkun og allt stúss sem henni fylgir. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir að tilraun hafi verið gerð með spjaldtölvur veturinn 2012 til 2013 og sú reynsla hafi gefið góða raun.

Við hverjar kosningar er ákveðið hvaða tæki og tól þingmenn fá. Þeir fengu nú eins og áður fartölvu en spjaldtölva bættist við.

Nú mæta þingmenn með spjaldtölvurnar á nefndarfundi og sækja á þær umsagnir og önnur vinnugögn. Helgi segir að það beri á því að þingmenn taki þær með sér inn í þingsal og afli sér gagna úr sæti sínu og punkti niður. Þeir fara jafnvel með þá í ræðustólinn.

Hingað til hefur ekki mátt taka fartölvur með sér í þingsal og það bann stendur enn en Helgi segir að engin andstaða hafi verið við því að taka spjaldtölvurnar þangað inn.

Þingmenn gátu valið á milli þess að fá bleikt eða blátt lok á iPadana en Helgi er ekki með tölur yfir það hvor liturinn hafi verið vinsælli.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.