Enski boltinn

Evrópufríið gæti hjálpað Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty
Luis Suarez telur að sú staðreynd að Liverpool tekur ekki þátt í Evrópukeppni þetta tímabilið gæti hjálpað liðinu að verða enskur meistari í vor.

Liverpool hefur tekið þátt í toppbaráttu deildarinnar af fullum krafti og þar er Suarez í aðalhlutverki. Hann er markahæsti leikmaður deildarinnar með 20 mörk.

Þrjú efstu lið deildarinnar eru öll komin áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar og Suarez segir að það gæti haft sitt að segja.

„Leikmenn þessara liða verða þreyttari eftir leikina í febrúar og mars. Það er eitthvað sem við verðum að nýta okkur,“ sagði Suarez við enska fjölmiðla.

„Mér hef ávallt talið að það sé gott fyrir knattspyrnumenn að spila sem flesta leiki en því fylgir auðvitað mikið álag að spila í jafn stórri keppni og Meistaradeildinni.“

„Ég veit ekki hvað mun þurfa til að landa titlinum en við áttum ekki skilið að tapa leikjum okkar gegn Manchester City og Chelsea um jólin. Við höfum verið að spila vel að undanförnu.“

Liverpool mætir Stoke síðdegis í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×